mánudagur, október 04, 2004

Hugrenningar á mánudagsmorgni

Ég var í samkvæmi um helgina og kvöldið endaði á umræðu um trúmál og þá sérstaklega Kristni. Ég hef reyndar oft velt því fyrir mér þetta með trúna - ég er alin upp í mjög trúuðu umhverfi og fór í sunnudagaskólann og kirkjuna næstum hverja einustu helgi og fleira í þá áttina, bað bænirnar eins og mér var kennt en aldrei fann ég - og hef ekki enn - nein tengsl við trúna, þ.e. Jesús og félaga. Ég er ekki með þessu að segja að ég haldi að maðurinn hafi ekki verið til, ég trúi því svo sem alveg. En ég eins og eflaust lang flestir þekki ekki nema aðalatriðin í biblíunni - bók bókanna - og á erfitt með að kenna mig sem Kristna þegar ég veit í rauninni ekki hvað kristin trú gengur út á. Ég efast stórlega um að þegar fólk ákveður að látta skíra börnin sín að það viti raunverulega hvað það felur í sér að láta skíra þau. Ömmu minni (sem er nú svo sannarlega Kristin kona) kom að orði þegar ég ákvað að láta ekki skíra son minn: „Hva, á hann þá ekkert að heita barnið???“ - eins og nafngjöfin komi skrírninni eitthvað við, annað en það að það hefur orðið að hefð að tengja þetta tvennt saman. Ég vil þá minna á að samkvæmt biblíunni lét fólk skírast á fullorðins aldri þegar fólk vildi meðtaka trúna af hjartans sannfæringu og vissi hvað það fól í sér. Ég verð að viðurkenna að ég gifti mig fyrir 4 árum í nafni guðs í kirkju og allar græjur. Ég hef oft hugsað um það eftirá hvað ég vildi að ég hefði gert það öðruvísi en bara í hugsunarleysi. já þessar pælingar eru mér ofarlega í huga þessa dagana og ég spyr mig: Til hvers að tilheyra einu trúarfélagi eða öðru? Sumir þurfa á því að halda og þurfa stöðugt að leia til Jesús eða annarra til sjálfsstyrkingar - en hvað með það að trúa á sjálfan sig. Hvað heitir sú trú? Mér þætti forvitnilegt að vita hvort trúin á sjálfið hafi e-ð nafn? Ef ekki þá væri gaman að heyra hugmyndir...